„Stundum koma hugmyndir um byggingar utan frá. En þessi þróaðist innan frá og út á við,“ segir hann.
SKJÓL Á ÍSLANDI
Eins og flestar byggingar á Íslandi þarf þessi bygging að vera athvarf og skjól. Hún er staðsett útvið opið haf og fær stundum á sig óvægna vinda úr norðaustri. Veðurskilyrðin geta verið talsvert krefjandi á tilteknum tímum ársins, rétt eins og annars staðar á þessari eyju úti á miðju hafi.
„Á Íslandi reynir maður alltaf að láta framhliðina vísa í suður,“ segir Páll, „til að skýla sér sem best fyrir veðrahamnum.“
Íslensk byggingarlist einkennist að verulegu leyti af áhrifum náttúruaflanna og margra alda heillandisögu og menningu, en þó segir Páll að þetta sé svið sem er enn í mótun, rétt eins og náttúra landsins sjálfs.
„Ísland er mjög ungt hvað arkitektúr varðar – byggingar fortíðarinnar hafa ekki lifað af,“ segir hann. Hér má að sjálfsögðu greina sömu áhrif iðnvæðingarinnar og hafa einkennt byggingarstíl á hinum Norðurlöndunum. En þetta er afar skapandi þjóð sem er enn að þroskast hvað hönnunarstíl og hönnunarhugsun varðar,“ segir hann.
„Ekki síst vegna þess hvað landið er ungt í landfræðilegum skilningi. Ísland er land í mótun,“ bætir hann við. „Það býr yfir mikilli orku, hörku, grófum dráttum. Það hefur ekki verið slípað til.“
FlyOver Iceland er hannað í þessum grófgerða stíl, sem einnig einkennir allt Grandasvæðið, þar sem borgarlíf, iðnaðarsvæði, nútímalegar byggingar og sögulegar minjar mynda spennandi heild. Páll segir að byggingin muni þó einnig hafa yfir sér hlýlegan og notalegan blæ gestgjafa sem vill að gestunum líði vel á meðan heimsókn stendur yfir.
An Architect's Watch
Páll segir að það sé fyrir duttlunga örlaganna sem FlyOver Iceland er nú í byggingu hinum megin við götuna við fyrirtækið hans, Plús arkitektar.
„Það er reyndar tilviljun, en mjög skemmtileg tilviljun,“ segir hann. „Ég hef aldrei upplifað þessa nánd við verkefni áður og mun sennilega ekki upplifa það aftur, að geta horft yfir byggingarsvæði svona risaverkefnis á hverjum degi og geta rölt út og spjallað við iðnaðarmennina.“

Fyrsta skóflustungan var tekin í apríl árið 2018 og þegar leið á haustið voru burðarvirki byggingarinnar nánast fullgerð. Í byggingarteyminu eru arkitektar frá fyrirtæki Páls og stór hópur iðnaðarmanna á svæðinu.
„Það er eins gott að það takist vel til því ég þarf að hafa þetta fyrir augunum beint fyrir framan gluggann,“ bætir hann við og hlær.
RÁÐLEGGINGAR FRÁ REYKVÍKINGI
Páll segir að það hafi markað djúp spor í sál hans, eins og annarra landsmanna, að alast upp á stað sem er jafn afskekktur og landfræðilega krefjandi og Ísland er.
„Það mótar mann tilfinningalega að alast upp hér,“ segir hann. „Ég hugsa að ég tali fyrir munn flestra Íslendinga þegar ég segi að við elskum landið okkar afar heitt. Okkur finnst það í alvöru besti staður í heimi – jafnvel þegar það rignir allt sumarið!“
Og þótt Páll sé svolítið hvumsa yfir því hvað ferðamönnum hefur fjölgað gífurlega („ég heyrði því fleygt að það væri af því að landið lítur svo vel út á Instagram,“ segir hann hlæjandi) er hann meira en til í að gefa gestum borgarinnar góð ráð um skemmtilega staði í heimaborginni hans.
Hér eru fimm ráðleggingar frá Páli:
Hverfiskaffihúsin
Í Reykjavík er fullt af litlum og notalegum kaffihúsum. Kaffihús Vesturbæjar (sem yfirleitt er bara kallað „Kaffi Vest“) er látlaus og notalegur staður sem er í miklu uppáhaldi hjá Páli.
Hverfislaugarnar
Flestir ferðamenn eru sendir beint í manngerðar heitar laugar á borð við Bláa lónið en Íslendingarnir sækja fremur gamalgrónar sundlaugarnar sem finna má í sumum hverfum borgarinnar. Alls er hægt að velja á milli 18 sundlauga í borginni. Þarna hittast Reykvíkingar, margir mjög reglulega, til að blanda geði, þrasa um pólitík og slaka á. „Það má alls ekki missa af sundlaugunum, þær eru frábærar,“ segir Páll.
Gönguferð með strandlengjunni
Að fá sér göngutúr með fram strandlengjunni í Reykjavík er eitt af því sem Páll hefur hvað mest yndi af. Göngustígarnir við ströndina handan við flugvallarsvæðið nærri miðborginni er í sérstöku uppáhaldi. „Þar er frábært að ganga – ég fer oft þangað með hundinn minn eða hjóla þessa leið,“ segir hann.
Veitingastaðirnir á Granda
Þar er úr mörgu að velja. Svæðið í kringum FlyOver Iceland er að verða eitt mest spennandi veitingahúsasvæði borgarinnar og býður allt frá skyndibitastöðum og pítsastöðum til matstofa í hæsta gæðaflokki. Páll er hrifinn af Coocoo's Nest, sem er líflegur og notalegur veitingastaður steinsnar frá vinnustofunni (og auðvitað líka rétt hjá FlyOver Iceland).
Þingvellir
Eitt af því sem Páll ráðleggur öllum er að heimsækja þjóðgarðinn Þingvelli, sem er á heimsminjaskrá UNESCO og í innan við klukkustundar akstursfjarlægð frá Reykjavík. „Þangað ættu allir að koma og fyrir því eru tvær ástæður: Jarðfræðilega er mjög heillandi að sjá þarna berum augum hvernig heimsálfuflekarnir tveir mætast, og menningarlega er þetta staðurinn þar sem landnámsmenn Íslands stofnsettu þingið, árið 930.
Svo verður sköpunarverk Páls, FlyOver Iceland, að sjálfsögðu ómissandi viðkomustaður þegar byggingin opnar sumarið 2019.