Tengslin milli Íslands og Kanada er sterk. Fjölmargir Kanadabúar eiga rætur að rekja til Vesturfaranna, menning okkar er ekki ósvipuð og samfélag beggja leitast við að vera opið og fjölbreytt. Til að kynnast betur Kanada nútímans náðum við tali af Heimi Berg Vilhjálmssyni sem flutti til Ottawa með konu og barn árið 2013.
„Við höfðum nýlega flutt heim frá Mílanó á Ítalíu þar sem við vorum í námi og við vorum enn með mikla útlandaþrá. Við vissum ekki alveg hvað við ætluðum að gera næst og á þessum tíma sótti ég um í Utanríkisráðuneytinu og var í kjölfarið boðin staða í sendiráði Íslands í Kanada sem ég þáði með þökkum.“
„Ég hafði lengi teiknað Kanada upp í hausnum á mér eins og draumaland og því er kannski asnalegt að viðurkenna að áður en flugvélin lenti í Toronto vissi ég í raun voðalega lítið um landið. Ég vissi auðvitað að Kanada væri mjög stórt land, að það væri miklar árstíðasveiflur og góð lífsskilyrði heilt yfir fyrir íbúa. En það kom mér virkilega á óvart hversu stórfenglegt og vinalegt landið er í raun og veru. Það virðist vera eitthvað „element“ í íbúum Kanada sem ég kann ekki alveg að útskýra með orðum en passar svo vel við náttúruna og fyllir mann hlýju. Manni líður vel og finnur greinilega að maður er velkominn, sérstaklega þegar fólk fattaði að maður væri Íslendingur. Það er lygilegt hversu ríkt það er í mörgum að halda í gamla íslenska fjölskyldutengingu frá tímum Vesturfaranna.“
„Það var ótrúlega auðvelt að venjast veðurfarinu. Við vorum í Ottawa, höfuðborg Kanada. Sumartíminn á þessum slóðum er engu líkur og haustið ekki síðra með sinni litadýrð. Borgin er mjög gróin eins og landið heilt yfir og yfir sumartímann var nánast alltaf gott veður, íkornar á hlaupum og fólk að njóta lífsins í almenningsgörðum eða kæla sig niður við kanalinn. Það eru alls staðar gönguleiðir og himinhá tré og það var mjög næs að geta horfið úr borginni og upplifað náttúrufegurð og sveitasælu í miðri borg með því að beygja bara örlítið frá götunum. Þegar haustar er svo gaman að sjá hvernig allt breytist á svipstundu og iðagrænt sumarið víkur fyrir litríkum haustlitum.“
„Fjarlægðirnar og vegalengdirnar. Landið er svo ofboðslega stórt og langt á milli allra staða. Við áttum t.d. heima í Ontario-fylki en samt var ferðalagið að Niagara-fossum, sem eru í sama fylki og í raun frekar nálægt ef horft er á kort, rétt tæplega á pari við það að keyra hringinn í kringum Ísland. Við ætluðum líka alltaf að heimsækja vin minn sem átti á þessum tíma heima í Saskatoon, Saskatchewan en við hættum við þegar við áttuðum okkur á að það voru 3000 kílómetrar aðra leiðina og bílaleigan rukkaði kílómetragjald eftir vissa vegalengd.“
„Við upplifðum í sjálfu sér engar hindranir við það að eiga barn þegar við dvöldum í Kanada. Á þessum tíma áttum við eitt barn og vorum það lánsöm að þau mæðgin gátu notið lífsins á meðan ég var í vinnunni og það er ótrúlega gefandi og gott að vita til þess að þau hafi haft tækifæri til að njóta lífsins og fengið að máta sig í nýrri heimsálfu. Þrátt fyrir að Ottawa sé talin örugg borg tókum við auðvitað eftir því að allar skólalóðir og leikvellir voru vel afmarkaðar og pottþétt minna frjálsræði hjá krökkunum þar heldur en t.d. víða hér á landi.“
„Við dvöldum að mestu í nágrenni við höfuðborgina og ferðuðumst um Ontario og Quebec. Ætli Gatineau Park hafi ekki verið frægasti ferðamannastaðurinn utan borgarmarka sem við heimsóttum. Það er ævintýralega stór garður í Quebec sem er töluvert stærri að flatarmáli en höfuðborgarsvæðið okkar. Alger paradís sem heimamenn sækja mikið í frítíma og stunda sína útivist; fara í fjallgöngur, hjólaferðir, á kajak, skauta, skíðagöngu o.s.frv – allt eftir því hvaða árstíð stendur yfir. Í borginni mætti helst nefna Rideau Canal, það er ótrúlega flottur kanall eða skipaskurður í miðborginni sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Hann er eiginlega beint úr ævintýrasmiðju Disney með kastala öðrum megin og þinghúsið hinum megin. Ótrúlega flottur. Kanallinn frýs líka á veturna og breytist í lengsta skautasvell í heimi. Þess utan fórum við nokkrum sinnum til Montreal og Toronto og sáum margt í borgunum tveimur.
Við vorum samt auðvitað mest í Ottawa, sem er afskaplega falleg og alþjóðleg borg. Hún er höfuðborgin, þar fer stjórnsýslan fram og þar er mikið af söfnum og sögufrægum byggingum og stöðum sem má tengja við seinni heimsstyrjöldina og þess háttar.“
Heimir Berg Vilhjálmsson er þriggja barna faðir, fæddur og uppalinn á Akranesi. Hann býr í dag á Snæfellsnesi þar sem hann starfar sem markaðs- og upplýsingafulltrúi hjá Snæfellsbæ og rekur verslunina Útgerðina í Ólafsvík með unnustu sinni, Rut Ragnarsdóttur.