Eftir að hafa flogið í meira en 100 klukkustundir í þyrlu um Ísland þvert og endilangt kemur landið Rick Rothschild enn á óvart. Hann segir að vinna sín sem hugmyndahönnuður fyrir FlyOver Iceland hafi veitt sér mikla ánægju og sífellt komið á óvart.
Hvarvetna má sjá bratta og þrönga firði, tignarleg fjöll, víðáttumikla jökla og ár sem kvíslast um aura og sanda. „Ég segi það satt að í hvert sinn sem við förum eitthvað hér á landi sjáum við eitthvað áhugavert, einstakt, spennandi og fallegt“ segir hann.
Hugmyndahönnuðirnir, sem leggja ávallt metnað sinn í að fanga fegurð náttúrunnar, hafa upplifað hverja einustu flugferð sem ævintýri. Og verki þeirra er enn ekki lokið.
Saga Íslands Tekur Á Sig Mynd
Rothschild segir að jafnt og þétt hafi ákveðið þema tekið á sig mynd frá því síðasta vor, en þá hóf hann, ásamt leikstjóranum Dave Mossop og íslenska aðstoðarfólkinu frá Pursuit, að setja saman lista um hugsanlega tökustaði fyrir FlyOver Iceland. Hann kallar þetta þema „Hið öfgafulla Ísland sem kemur sífellt á óvart.“
Til að byrja með var lagt upp með lista yfir hugsanlega tökustaði þar sem mögulega mætti finna rétta blöndu af áhrifamiklu landslaginu og mannlífinu sem þrífst þar. En Rothschild segir að ferlið hafi í raun ekki verið einfaldur gátlisti, heldur síbreytilegt ferðalag.

Mynd: Myndavélinni sem fest er framan á þyrlu FlyOver Iceland að utanverðu er stjórnað af áhöfninni sem situr inni í þyrlunni.
Mossop og samstarfsfólk hans gerðu sér fljótt grein fyrir því að ekki væri hægt að gera sér í hugarlund fyrirfram hver sagan yrði. Eftir að hafa kynnt sér menninguna, söguna og landslagið ítarlega með dyggri aðstoð íslenska aðstoðarfólksins frá Pursuit, ákváðu þeir að leggja áherslu á eldmóð landsins og fólksins sem þar býr.
„Ísland er ekki stórt land en það er algerlega einstakt“ segir Rothschild. Eftir að hafa varið mörgum vikum við undirbúning og kvikmyndatökur hefur hann lært að meta landið á þann hátt sem fáir hafa áður gert. „Ég held að það sem ég kann helst af öllu að meta við Ísland sé hinn óbeislaði kraftur náttúrunnar sem þar er að finna.“
Alls staðar má finna rennandi vatn, og ólíkt því sem gengur og gerist víðast hvar annars staðar er enginn skógur sem hindrar útsýnið. Ekkert er falið, allt er sýnilegt. Flekahreyfingar jarðskorpunnar og eldsumbrot eiga sér stað beint fyrir framan þig. Geysilegar öfgar eru til staðar í dagsbirtu og litadýrð, allt frá björtum sumarnóttum í júní til svartasta skammdegisins um miðjan vetur.
Íslenska Veðrið: Vertu Við Öllu Búin
Teyminu var gerð grein fyrir hinum ófyrirsjáanlegu veðurskilyrðum á Íslandi. Rothschild rifjar upp: „Allir lögðu áherslu á að við þyrftum að gera ráð fyrir alls konar veðri.“
Þú getur ekki skipulagt ferð til Íslands án þess að gera ráð fyrir að lenda í misjöfnu veðri.